Monday, December 26, 2005

26. ferð, 18.júní. Húsafell.

Lagt af stað rétt um hádegisbil. Ákvörðunarstaður Húsafell og í för voru pabbinn, stubban og Dagbjört Sunna, vinkona stubbunnar að vestan. Veðrið var allþokkalegt, þurrt en vindsperringur er ofar dró. Komum við í Borgarnessbónus að vanda og nestuðum okkur til dvalar. Í Húsafelli var allmargt- raunar gríðarlega margt fólk. Alltof margt. Ég komst að því þegar ég ætlaði að tengjast rafmagni að fellihýsalýðurinn hafði að vanda lagt undir sig tvö pláss hver gisting, eitt fyrir hýsið og annað fyrir bílinn. Þannig voru öll rými innan seilingar frá raftenglunum upptekin, og helmingurinn af bílum hýsiseigenda. Við lögðum því í rjóðri lengra frá og létum okkur duga okkar eigið rafmagn. Laugardagurinn leið til kvölds í sundlauginni og á loftpúðanum, stelpurnar skemmtu sér konunglega. Veðrið lagaðist er á kvöldið leið og var orðið allgott um hálfellefuleytið þegar við lögðumst til svefns. Okkur (aðallega pabbanum) varð þó ekki svefnsamt um nóttina vegna drykkjuláta en þarna í kring var fólk sem greinilega hafði komið fyrir 17. júní og var því búið að djamma lengi þegar okkur bar að. Það virtist þó enginn skortur á úthaldinu og var ekki dregið af fyrr en undir morgun. Við vöknuðum um hálfníu í ausandi rigningu og eftir að hafa komist að því að sundlaugin yrði eki opnuð fyrr en kl 14. var gripið í spil og horft á barnaefni í sjónvarpinu. Um ellefuleytið hringdi Elvar, pabbi Dagbjartar og var að leggja af stað frá Rvk. áleiðis til Ísafjarðar. Við ákváðum að hittast í Borgarnesi og þangað komum við rúmlega 12, enn í rigningu. Skiluðum Dagbjörtu og dóluðum Hvalfjörðinn heim. Komum í hlað á miðjum sunnudegi.