Thursday, June 09, 2005

25. ferð, 4.júní,sjómannadagurinn

.

Af stað úr Kópavogi á laugardagsmorgni. Brottför seinkaði vegna anna heima við en við lögðum af stað um hálf ellefu. Sem fyrr voru aðeins tveir í áhöfn, stubban og ekillinn. Hins vegar voru með í för tveir farþegar. Áróra hafði nefnilega ákveðið að slást í förina ásamt Líneik vinkonu sinni, en þær ætluðu að gista í tjaldi og vildu helst sem minnst af okkur vita meðan á dvölinni stæði. Ákvörðunarstaðurinn var Stykkishólmur og erindið sjómannadagurinn og þau hátíðahöld og skemmtanir sem honum fylgja þar jafnan. Við höfðum hefðbundna ísviðkomu í Borgarnesi en misstum óvart Áróru og Líneik inn í verslunarmiðstöðina. Eins og við mátti búast tók nokkuð langa stund að ná þeim út aftur. Það hafðist þó að lokum og við héldum af stað.
Fljótlega eftir að Borgarnes var að baki var allur mannskapurinn sofnaður, að eklinum undanskildum þó. Vinkonurnar sváfu aftur í klefa með lokað á milli en stubban svaf í farþegastólnum. Það var ekki fyrr en norður yfir nes kom, eða innundir Gríshóli, sem líf fór að færast í mannskapinn. Við vorum komin á tjaldsvæðið í Hólminum um kl. hálftvö, gengum strax frá bílnum í stæði og við stubba héldum í bæinn meðan þær eldri fóru að tjalda. Við fórum beint á upplýsingaskrifstofuna til að greiða tjaldsvæðið en vegna ýmissa tafa þar vorum við ekki komin á höfnina fyrr en rétt fyrir kl.tvö. Setning hátíðahaldanna skyldi vera kl. 13.30 og skemmtiatriði voru auglýst kl. 14 en vegna ónákvæmni í auglýstri dagskrá misstum við af rúmum helming atriðanna þar sem byrjað hafði verið fyrir auglýstan tíma. Við létum það ekki spilla góðum degi, því veðrið var eins og best varð á kosið, hreinlega eins og á Spáni. Við höfðum tekið reiðhjólin með og hjóluðum um bæinn í blíðunni, skruppum í Bónus og versluðum í kvöldmatinn. Þá var stefnan tekin á sundlaugina. Þar var dvalið í hálfan annan tíma en síðan snúið til bíls, grillið tekið fram og dýrindis kvöldverður settur upp. Vinkonurnar höfðu ákveðið að borða úti og því vorum við bara tvö um krásirnar. Eftir að hafa matast var aftur haldið í bæinn, klifrað uppá Súgandisey og síðan haldið aftur til bíls um Maðkavík. Þar liggur ein af gömlu trillunum okkar ”Sibba”, og grotnar niður. Við fórum snemma í háttinn og sofnuðum í glampandi kvöldsól.
Það var aftur komið glaðasólskin þegar við vöknuðum að morgni um kl. hálfátta. Sæferðir höfðu að venju boðið börnunum í eyjasiglingu og þar sem brottför var ákveðin kl. 10 var dagurinn tekinn snemma. Eftir góðan morgunverð vorum við mætt tímanlega niður á bryggju. Siglingin tók um klukkutíma í frábæru veðri, heldur styttri en vanalega en brást þó ekki vonum. Að siglingu lokinni heimsóttum við kunningjafólk búsett í Hólminum og fórum því næst aftur í sundlaugina.
Þar var hreinlega eins og á bestu baðströnd. Glampandi sólin, sólbekkir, vaðlaug, heitir pottar, stór rennibraut og bæði úti og innilaug. Þarna dvöldum við hátt í tvo tíma, enda nær engin leið að ná stubbunni upp úr vatninu, eftir að hún fann bolta og körfu á bakka innilaugarinnar.
Klukkan var farin að ganga fjögur þegar við héldum til bíls á ný. Tókum saman búnaðinn meðan þær eldri pökkuðu tjaldinu. Yfirgáfum Stykkishólm enn baðaðan í sólskini rétt fyrir fjögur og tókum stefnuna suður. Slepptum Borgarnesstoppi í þetta sinn en ákváðum þess í stað að fara út á Akranes og eyða þar stund í bryggjurölt.
Heimsóttum ”Sóló”, síðustu trilluna okkar, sem við fluttum með okkur suður. Hún hímdi í porti innan um haug af misvanhirtum bátum og má svo sannarlega muna sinn fífil fegurri.
Eftir heimsókn í ísbúðina var enn haldið af stað og ekið sem leið lá heim í Kópavog. Þar með lauk enn einni góðri ferðahelgi á Ísfirðingnum.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home