Thursday, June 09, 2005

24. ferð, 27 maí.

Fórum úr bænum um hálfsexleytið á föstudagseftirmiðdegi með stefnu á Reykhóla. Í ferðinni voru bara ekillinn og stubban og erindið var að líta á trillu sem við höfðum von um að fá keypta. Ferðin gekk þokkalega framan af þrátt fyrir hvassviðri af norðaustri. Í uppsveitum Borgarfjarðar var þó orðið verulega hvasst og erfitt ferðaveður fyrir bílinn, sem sviptist mikið til og rásaði á veginum. Við fikruðum okkur yfir Bröttubrekku en þegar norður fyrir kom var veðrið enn verra. Kaflinn frá Fellsenda að Búðardal var einhver sá erfiðasti sem bíllinn hefur farið og á stundum vorum við nánast í hættu vegna roksins sem stóð upp á hægri hliðina og hélt bílnum með slagsíðu alla leiðina. Við vorum samt ákveðin í að ná okkar áfanga, þótt ferðahraðinn væri orðinn næsta lítill þegar svona var komið. Við Króksfjarðarnes dró heldur úr sviptingunum og við náðum vandræðalítið að Reykhólum um kl. hálf tíu. Renndum niður að þörungaverksmiðjunni en lögðum síðan bílnum við tjaldsvæðið. Það er staðsett neðan við sundlaugina sem því miður reyndist vatnslaus og ekki í notkun. Það sama gilti um tjaldsvæðið sjálft, aðstaðan var lokuð og greinilega nokkuð í sumarið enn. Við fengum okkur göngutúr þangað sem báturinn lá og litum á væntanlega eign. Aftur hafði bætt í vind og hitinn var um frostmark, svo eftir að hafa barist til baka til bílsins tókum við okkur upp, færðum bílinn í skjól við skemmu innar í þorpinu. Þar tók rokið síður í og við eyddum nóttinni með kveikt á eldavélinni. Að morgni höfðu hitamælarnir okkar numið – 1.6 gráðu frost yfir nóttina. Það hafði brugðið fyrir gráum lit með storminum kvöldið áður en þarna með morgninum fór hreinlega að snjóa! Við lágum frameftir, bættum síðan í hitann og skriðum á fætur. Eftir morgunmat var gripið í spil og horft á tímatöku fyrir Formúluna. Ég mannaði mig upp í aðra skoðunarferð að trillunni, en eftir að hafa skoðað og myndað nokkra stund var kuldinn hreinlega að ganga af mér dauðum. Ég forðaði mér inn í ylinn aftur og hringdi í eigandann. Hann kom síðan eftir nokkra stund og við gerðum kaupin í vinnuskúr sem þarna stóð. Við stubban ákváðum síðan að leggja hið bráðasta af stað suður áður en til þess kæmi að við þyrftum snjókeðjur að láni. Reyndar sáum við fljótlega eftir að lagt var af stað að snjórinn var svo til eingöngu bundinn við Reykhóla og nágrenni, annars staðar var autt að mestu. Við ókum sömu leið suður með stuttri viðkomu í Búðardal. Tókum síðasta spölinn rólega og komum mátulega í matinn og Júróvisjón hjá mömmu.

9 Comments:

Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:57 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:57 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:57 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:58 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:58 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:58 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:58 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:58 PM  
Blogger kayan web said...

This comment has been removed by the author.

12:59 PM  

Post a Comment

<< Home