Saturday, January 29, 2005

Ferðapunktar.

Ferðabók Ísfirðingsins

Frá skráningardegi þ.16.06.2003.

1. ferð 21.júní.

Fórum að heiman um hádegi á laugardegi með stefnu á Tungurnar. Fór ekki í gang í innkeyrslunni vegna rafmagnsleysis. Fengum start hjá Arnari Þór.Fyrsta tilfinningin fyrir bílnum fékkst á Breiðholtsbrautinni - ærandi hávaði, víbringur, nötrandi kúpling og kraftleysi. 'I Grímsnesinu kynntumst við áður óþekktum hreyfingum - mikið af rússibönum ( öldum) í malbikinu og bíllinn nánast lyfti framendanum. Komumst þó fyrir rest að Laugarási. Rétt áður datt þó hraðamælirinn út.Komum okkur fyrir á tjaldsvæði við ána í miðju flugnageri og grilluðum á litla kolagrillinu, svínakótilettur kryddaðar ösku og mýi. Stelpurnar gáfust fljótlega upp á flugunum og lokuðu sig inni í bíl en fengust þó í smá göngutúr. Svæðið var yfirfullt af húsbílum og strigahótelum. Héldum undir nóttina upp að Reykholti þar sem okkur leist friðvænlegri næturstaður og gistum þar á tjaldsvæði í félagsskap fjögurra Flakkara frá Akra- og Borgarnesi. Veðrið frábært. Á sunnudagsmorgninum var farið í sund í Reykholti, góðri laug með 2 heitum pottum og lítilli rennibraut. Síðan var haldið í Slakka. Dólað heim að áliðnum degi með viðkomu í Hveragerði.
Þvi má bæta við að fíni, tvívirki rofinn fyrir kæliboxið virkaði ekki nema á húsbílakerfinu og þ.a.l. gagnslaus á ferð. Var strax lagfært við heimkomu.


2. ferð 4-7.júlí

Færeyskir dagar í 'Olafsvík. Lögðum af stað um miðjan dag á föstudegi. Geislaspilarinn reyndist óvirkur í upphafi en lagfærður úti á götu. Ókum fyrir Hvalfjörð og stoppuðum við olíustöðina í kaffi. Stoppuðum næst við Vegamót á Snæfellsnesi og ókum síðan vatnaleiðina yfir í Stykkishólm. Margir á tjaldsvæðinu, þokkalegt veður,gola og hlýtt.Morguninn eftir hittum við Kristján Finnbogason frá Ísafirði við fellihýsi og litum svo inn til Löllu og Gulla. Fórum í laugina og bakaríið og dóluðum síðan áleiðis út nes. Komum til Ólafsvíkur um kl 15. Lögðum bílnum í hópi húsbíla í miðjum bænum og fórum á röltið. Lágskýjað, kalt og stífur norðanvindur. Hittum Bubba og Siggu Kalla á "Dalalæðunni". Grilluðum kvöldmat á nýja gasgrillinu og ætluðum síðan að snúa bílnum undan veðri en nei takk - ekkert start ! Við sátum föst milli bíla inni á miðju stæði, hvorki hægt að komast að til að draga né gefa start. Stormurinn stóð upp á miðstöðvarristina og hliðarhurðina. Hittum Dodda og Ingibjörgu um kvöldið, röltum um bæinn og sváfum svo við eldavélina. Um morguninn þegar fólk fór að vakna - þeas. þeir sem eitthvað gátu sofið fyrir hávaða og fylliríi - fengum við aðstoð frá félögunum á "Botníu" og "Rúdolf" sem drógu okkur í gang og mældu fyrir okkur hleðsluna. Tókum olíu og héldum áleiðis heim. 'Okum Fróðarheiði og út að Búðum. Fórum líka niður að Stakkhamri en ekki niður í Löngufjörur vegna roks og kríuágangs.Áðum í Borgarnesi með Hyrnuís að venju. Komin heim um kvöldmatarleytið á sunnud. 6.7. Áróra var á Ísafirði og fór ekki þessa ferð.


3. ferð 16. júlí.

Lagt af stað upp úr hádegi á miðvikudegi og haldið um Hvalfjarðargöng og Borgarnes upp Mýrar. Ókum Heydalsveg yfir nesið og inn Skógarströnd. Héldum inn í Haukadal og litum á tilgátubæ Eiríks rauða og umhverfi. Áðum smástund í Búðardal en héldum svo inn að Laugum í Sælingsdal. Völdum okkur blett á frábæru tjaldsvæði (en dýru), grilluðum og fórum svo í laugina til kl 22. Snemma að sofa.
Dagur 2. Vöknuðum í steikjandi hita og glampandi sól. Fórum í fjallgöngu og héldum svo af stað um hádegið. Ókum að Krosshólum og þaðan út Fellsströnd. Skoðuðum kirkjuna að Staðarfelli og ókum þaðan út að Klofningi. Klifruðum þar upp og skoðuðum útsýnisskífu. Héldum síðan inn Skarðsströnd að Skarði. Skoðuðum kirkjuna með leiðsögn, fórum niður að Skarðsstöð og síðan inn að Saurbæ. Litum á Saurbæjarkirkju undir leiðsögn sóknarnefndarmanns sem óbeðinn kom gagngert til að sýna okkur. Héldum þaðan suður Svínadal og áðum enn í Búardal. Ókum loks fram Laxárdal, yfir heiðina og inn að Borðeyri. Reyndum að grilla kjúklingabita en brenndum þá alla. Áttum pylsur sem björguðu matartímanum. Eyddum kvöldinu í félagsskap ágætis fólks frá Eyrarbakka og Stokkseyri.
Dagur 3. Héldum frá Borðeyri um kl. 11 til Hvammstanga í dýrðarveðri. Fórum í sundlaugina til að kæla okkur. Hitinn var um 24 gráður. Fórum frá Hvammstanga um kl. 14 til Blönduóss. Stutt stopp þar og síðan út með Húnafirðinum og yfir Þverárfjall á malbiki yfir í Skagafjörð. Héldum út með firði og skoðuðum m.a. Ketubjörg. Fórum fyrir Hraun og inn að Kálfshamarsvík. Gengum milli rústa og skoðuðum stuðlabergið í fjörunni, hreint listaverk náttúrunnar. Komum inn að Skagaströnd eftir kvöldmat en fengum okkur þó kántrípizzur og - hamborgara hjá Hallbirni. Lögðum bílnum á tjaldsvæðinu og fengum okkur svo göngu og hjólatúr um bæinn fyrir svefninn.
Dagur 4. Vöknuðum í þoku sem hékk rétt yfir okkur.Drifum okkur af stað inn á Blönduóss. Þar var að hefjast sýningin " Matur og menning" ásamt Bylgjulestinni. Heyrðum frá Pétri Má og Margréti á leið norður, hittum þau í lok dags og urðum samferða um Langadal, yfir Vatnsskarð og út í Sæmundarhlíð.Eddum síðan kvöldinu með þeim ásamt Magnúsi í sumarbústaðnum að Ási. Fórum um miðnættið út á Sauðárkrók, fengum raftengingu fyrir bílinn á tjaldsvæðinu og sofnuðum eins og steinar. (við rákum augun í gamlan Volksvagen húsbíl sem stóð á tjaldsvæðinu á parkljósum en fólkið auðsjáanlega sofnað.Bankaði laust á bílinn en fékk ekkert svar.Bíllinn stóð svo á ljósum alla nóttina en að morgni heyrðum við hann fara í gang. Þegar ég gekk yfir að bílnum til að spyrja um hvaða ofurrafgeymi hann hefði heilsuðu okkur fullorðin hjón frá Ólafsfirði.Maðurinn kynnti sig sem Stefán Ásberg, nýgenginn í Flakkarana og vissi ekkert um ljósin en kvaðst reyndar vera með nýjan geymi. Stefán Ásberg taldi sig muna eftir Theodóri afa og kannaðist vel við Lóló og Kidda.Við kvöddum svo þessi hjón eftir gott spjall). Dagur 5. Vöknuðum snemma, fórum í sundlaugina og horfðum á Formúluna í bílnum. Fórum síðan í bakaríið, skoðuðum útsýnið frá kirkjugarðinum og dóluðum síðan inn að Reynistað. Skoðuðum kirkju og garð ásamt legsteinum ættingja Elínar. Þaðan var haldið að Glaumbæ, gengið um og skoðað. Fórum þvínæst inn að Varmahlíð í ísinn og síðan yfir Vatnsskarð á suðurleið. Fórum Svínvetningabraut og skoðuðum kirkjuna að Auðkúlu. Þaðan að Hvammstanga og lögðum á tjaldsvæðinu.Eyddum frábæru kvöldi í fótbolta, badminton og skoðunarferð að rústum Syðrihvamms.
Dagur 6. Fórum um morguninn með bílinn á verkstæði og bættum olíu á gírkassann. Lögðum svo af stað heim í góðu veðri um hádegi en ókum inn i rigningu innar í Miðfirðinum. Hún hélst alla leið. Komum í hlað um kl 16 á mánud.


4. ferð 1.ágúst.

Farið frá Kópavogi um kl. 14.30 á föstudegi áleiðis til Ísafjarðar.Þar var haldið unglingalandsmót með meiru og fullur bær af fólki. Vorum í ágætu veðri upp Norðurárdal en við Hvamm ókum við inn í regnvegg og rok ásamt þoku. Þetta veður fylgdi okkur alla leið til Hólmavíkur og olíueyðslan jókst um helming. Frá Hólmavík var veðrið skaplegra. Komum til Ísafjarðar um kl. 22. Áðum samtals 1 1/2 tíma á leiðinni. Heimsóttum marga, hittum enn fleiri og fórum í sund bæði á Suðureyri og í Bolungavík. Fórum fram að Hanhóli og hittum nokkra hunda en ekkert fólk. ( Jói var í heyskap úti á túni). Gríðarlega margt fólk í bænum, gott veður og allir glaðir. Lögðum upp frá Ísafirði síðari hluta miðvikudags og höfðum viðkomu í Súðavík hjá Boggu. Komum að Laugarhóli í Bjarnarfirði um kl. 23, grilluðum síðbúinn kvöldmat og sváfum vel á tjaldsvæði með bilað bæði vatn og salerni. Á fimmtudagsmorgni fórum við af stað um kl. 11 í góðu veðri áleiðis norður strandir.Stoppuðum við eyðibýlið Eyjar og dóluðum svo norðar á holóttum og grýttum vegi. Norðan við Kaldbaksvík lagaðist vegurinn til muna og var þokkalegur um Veiðileysu og upp Reykjafjarðarháls. Seinfarið niður í fjörðinn. Áðum á Djúpuvík og skoðuðum verksmiðjuna með fylgd. Henni lauk nokkuð snögglega vegna slyss í verksmiðjuhúsinu. Skoðuðum því síðasta hlutann án leiðsagnar.Fórum síðan fyrir Reykjarfjörð út að Gjögri og yfir í Trékyllisvík. Þar, við Finnbogastaði, varð kvenfólkið eftir en bíll og bílstjóri héldu áfram yfir fjallið að Eyri í Ingólfsfirði. Þar var gamla verksmiðjan skoðuð og þær byggingar sem við hana standa enn. Síðan var haldið til baka yfir í Trékyllisvík og Bergrós sótt. Saman fórum við í Norðurfjörð.Þar spjölluðum við við trillukarla sem voru að koma af sjó og skrifuðum í sandinn. Því næst lá liðin til baka og við sóttum mæðgurnar. Ókum að Gjögri og tókum hring þar. Hitti trillukarl á bryggjunni og bað fyrir kveðju til Óla Thorarensen sem var á sjó. Ákváðum að vera aðra nótt í Bjarnarfirði og komum þangað um kl. 21. Grilluðum kvöldmat og fórum snemma að sofa.
Föstudagurinn 8.8. var afmælisdagur Áróru. Vaknað snemma, teknar upp gjafir og síðan í sund. Frábær laug, vel heit og náttúrupottur við hliðina. Dvöldum þarna hálfan annan tíma og héldum síðan út með firði að sunnanverðu, hjá Kaldrananesi og yfir að Drangsnesi. Tókum hring þar, litum á Kerlinguna og fórum síðan til Hólmavíkur. Versluðum í matinn, fórum síðan á tjaldsvæðið og grilluðum síðbúinn hádegisverð. Héldum frá Hólmavík um kl. 17 og fórum Tröllatunguheiði. Kíktum í ber að vestanverðu en fengum lítið og ókum áfram suður Svínadal. Þar féllu fyrstu regndroparnir í ferðinni. Vorum í Búðardal í rigningu sem jókst er sunnar dró. Ókum nýju Bröttubrekkuna og komum heim um kl 22 á föstudagskvöld.

5.ferð 15. ágúst.

Aðeins tvennt fór fimmtu ferðina: Stubba og pabbi. Áfangastaðurinn var Svínavatn í Húnaþingi og erindið að veiða fisk með Flökkurunum. Lögðum af stað á föstudagskvöldi og ókum í Borgarnes þar sem tekið var ísstopp. Hittum Birtu og hennar fólk á leið í sumarbústað á Vatnsnesi. Stór hópur fólks var einnig á leið á Danska daga í Hólminum. Við ókum síðan beint að Laugabakka og ætluðum að gista þar en eitthvað var óklárt með tjaldsvæðið svo við ókum út á Hvammstanga. Lögðum bílnum niðri við bryggju og sváfum þar um nóttina í dýrlegu veðri. Vöknuðum um kl. 8.30 á laugardagsmorgun. Eftir morgunmat héldum við áfram og komum að Svínavatni um kl. 10.30. Þar voru þá fyrir um 30 bílar. Lögðum í hópnum, gerðum klárt og fórum að veiða. Lítil veiði var í vatninu en þokkalegt veður. Stóðum við til kl. 12.30 en tókum þá hádegismat og lögðum okkur síðan í tvo tíma. Fórum aftur að veiða um 16.30 en það var sama sagan: enginn fiskur. Stóðum við til kl. 19. Grilluðum þá kvöldmat,horfðum á fréttir og gengum frá. Allt stefndi í mikinn gleðskap í kringum okkur svo við ákváðum að færa bílinn. Veiddum enn til kl. 21 en fórum þá niður á Blönduós og fengum okkur ís o.flr. Komum við í ruslagryfjum og fengum okkur spýtur og gangstéttarhellu til að hlaða undir bílinn. Héldum síðan aftur upp að vatni og lögðum nú annarsstaðar. Réttum bílinn af með ruslinu og röbbuðum við ”nágranna”. Fórum að sofa rétt fyrir miðnættið í afar góðu veðri. Vöknuðum í sólskini á sunnudagsmorgun og um leið og við litum út úr bílnum var kallað: ”hvað segja Ísfirðingar?” Var þar kominn Stefán Ásberg, sá sem við kynntumst á Sauðárkróki fyrr um sumarið. Þau hjónin höfðu komið seint kvöldið áður eingöngu til að slást í hópin en ekki til að veiða. Eftir morgunmat börðum við vatnið til kl. 11. Fórum þá að tygja okkur til heimferðar. Þar sem töluvert hafði rignt kvöldið áður var bíllinn grútskítugur eftir Blönduóssferðina. Komum því við í Víðihlíð og þvoðum og tókum olíu. Heiðskírt og hiti. Fórum út á Hvammstanga og lögðum enn á bryggjunni. Hádegismatur og sólbað ásamt veiði. Enginn var aflinn svo við héldum fljótlega af stað og nú til Borðeyrar. Reyndum að dorga þar í fjörunni en þar var of mikið útfall og of mikill þari. Lögðum enn af stað. Sú stutta lagði sig fljótlega afturí og sofnaði. Kom við í Fornahvammi og skoðaði gamla bæjar- og brúarstæðið. Við Hreðavatn vaknaði Bergrós. Fórum á bryggjuna í Borgarnesi og reyndum að dorga. Ekki vart við fisk svo við fórum á Bjössaróló. Ákváðum að reyna á Akranesi en þar var sama niðurstaðan: enginn fiskur. Komum heim kl. 21.30 með öngulinn í rassinum en að öðru leyti ánægð með ferðina.

6. ferð 21. ágúst.

Það var löngu ákveðið að bjóða Birtu vinkonu með að gista í bílnum og Húsafell varð fyrir valinu. Fórum af stað á fimmtudegi í ágætu veðri en nokkuð hvössu. Keyrðum Hvalfjörðinn og stelpurnar fengu að hlaupa um við Olíustöðina smástund. Fórum Dragháls og hefðum betur sleppt því, svo slæmur var vegurinn. Stoppuðum í Reykholti smástund og komum að Húsafelli um kl. 16.30. Lögðum bílnum og notuðum ruslið frá Blönduósi til að rétta bílinn af. Gerðum allt klárt og fórum svo í sundlaugina. Vorum þar í rúman klukkutíma en þá fundu stelpurnar stórt trampólín (loftpúða) sem komið hafði verið fyrir á flötinni neðan við laugina. Þar dvöldu þær meðan pabbinn fór heim í bíl að elda. Eftir kvöldmat fóru dömurnar aftur að hoppa. Komu ”heim” um hálftíu, útkeyrðar. Kvöldkaffi og í bólið um kl. 23. Fínt veður næsta morgun. Vaknað um kl. 8. Morgunmatur, tekið saman og haldið af stað heim. Fórum í Borgarnes og keyptum ís. Héldum síðan heim og vorum komin um kl. 12, mátulega fyrir skólasetningu Digranesskóla. (í sól og hita).

7.ferð 13. sept.

Fannst ómögulegt annað en að renna eina helgi í Hólminn og heilsa upp á Gulla og Löllu fyrir veturinn. Lagði af stað um miðjan laugardag. Veðrið var hryssingslegt, hvasst og skúrir. Var einn á ferð og ók beint í Hólminn og til þeirra hjóna. Átti þar góða stund að venju en þegar kvöldaði færði ég bílinn niður á bryggju og eldaði þar kvöldmat. Þegar svo horfa átti á fréttir í sjónvarpinu reyndust skilyrðin afleit svo ég færði mig enn og nú upp að nýju kirkjunni. Þar náði ég fréttunum en þraut rafmagn fyrir veðrið. Hafði hugsað mér að fara út í Grundarfjörð og Ólafsvík með morgninum en áætlunin var snarlega slegin af eftir hávaðarok um nóttina sem gekk lítið eða ekkert niður með birtingu auk dimmviðris og haugabrims á Breiðafirðinum. Það var því lítið spennandi að ferðast og eftir gott morgunkaffi hjá Gulla og stund í sundlauginni var stefnan sett beint heim. Þangað kom ég um fimmleytið eftir að hafa alla leiðina hálflegið á hliðinni vegna roksins.

8. ferð 20. sept.

Þessa helgi var húsbílafélagið með ferð að Tungu í Svínadal. Enn var hálf leiðinleg spá en ég lét slag standa og skellti mér (enn einn) af stað um miðjan laugardag. Í Kollafirðinum mætti ég kunningjafólki á húsbíl, kallaði í talstöðina til þeirra og spurði hvort menn væru að flýja staðinn. Þau sögðu svo ekki vera en þó væru þeir á hærri og léttari bílunum að fara því spáin væri slæm. Ég þyrfti þó engar áhyggjur að hafa af mínum þunga bíl. Enn væru um 30 bílar á staðnum og mikið fjör. Ég þakkaði og tók strikið inn Hvalfjörð. Ágætlega gekk inneftir en á leiðinni útmeð voru hviðurnar orðnar óþægilega hvassar, þó verri er utar dró. Við Ferstiklu var veðrið hreinlega orðið hættulegt háum og léttum bílum. Útundir Búrfelli fékk ég hviðu á bílinn sem hafði nærri feykt mér útaf á 80 km. hraða. Svo litlu mátti muna að öll hægri hlið bílsins var komin talsvert útfyrir malbik. Mér tókst þó að hanga á veginum en ók hægar upp að afleggjaranum að Tungu. Það reyndist rétt að allnokkur hópur bíla var samankominn við Tungu en greinilega höfðu þó nokkrir haldið heimleiðis frá talningu. Ég lagði bílnum á góðum stað, sléttum malarfleti og hóf vettvangskönnun. Fann tvo ”heita” potta í girðingu. Það var greinilega langt síðan þeir höfðu verið heitir, og voru auk þess grænir af slýi. Fann líka tvö salerni. annað var ljóslaust og læsingin ónýt, Hitt var nothæft. Félagið hafði fengið til afnota hús með hreinlætisaðstöðu og samkomusal. Þar voru menn að skemmta sér og skáluðu grimmt. Ekki fannst mér aðstaðan aðlaðandi svo ég kom mér vel fyrir í bílnum, eldaði inni og fór síðan snemma í háttinn. Um kvöldið gerði haglél sem breyttist í ausandi lárétta rigningu með óstæðu roki. Þessar hryðjur gerði öðru hverju alla nóttina og dró ekkert úr fyrr en um sjöleytið að morgni. Um sama leyti tæmdist gashylkið og samstundis varð ískalt í bílnum. Ég setti í gang og náði við það nokkrum yl en svo kalt var úti að vélin náði alls ekki vinnuhita. Það var því ekki um annað að ræða en koma sér heim og að loknum morgunverði veifaði ég nærstöddum og hélt af stað. Hafði þá aðeins farið tvisvar út úr bílnum í ferðinni, skoðunarferðina kvöldið áður og augnablik um morguninn. Kom heim um miðjan sunnudag og var feginn......

9. ferð 4 okt.


Síðasta ferð sumarsins var farin að Þjórsárveri á vegum Húsbílafélagsins. Við héldum af stað að heiman e.h. á laugardegi, í þetta sinn var konan með en börnin sátu heima. Við ókum austur að Þjórsárbrú og niður afleggjarann að Villingaholti. Fyrsti viðkomustaðurinn var Urriðafoss, þar var hópur frá félaginu að koma úr gönguferð að fossinum þegar við hófum okkar. Gengum meðfram þessum gríðarlega vatnsmikla fossi um stund, snerum síðan til bílsins og ókum á leiðarenda. Þar voru fyrir einir 50 bílar, ágætt veður, nóg pláss og fólk í góðu skapi. Við völdum okkur stað í útjaðri hópsins ( reynslunni ríkari frá Ólafsvík o.fl. stöðum) og komum okkur fyrir. Röltum um svæðið, litum á aðstöðuna og spjölluðum við fólk. Settum upp grillið og grilluðum hátíðamat. Snæddum í dýrðarveðri sem spáin sagði að myndi breytast með kvöldinu í rok og rigningu. Eftir kvöldmat var haldin útisamkoma á svæðinu og kveikt í bálkesti. Það stóð á endum að þegar kösturinn var brunninn niður féllu fyrstu regndroparnir. Hópurinn færði sig inn í samkomuhús staðarins og fljótlega mætti aðkeyptur spilari með sín tól og tæki svo harmonikkukarlarnir fengu frí um kvöldið. Sú kvöð fylgir jú allajafna þeim sem á hljóðfæri kunna að halda uppi fjöri í ferðum sem þessum en, semsagt, nú var keyptur spilari frá Selfossi. Sá reyndist ákaflega fjörugur og þegar stemningin var orðin rífandi, laust fyrir miðnættið, drógum við konan okkur í hlé enda lítið ballfólk. Þá var komið hávaðarok með ausandi rigningu og konunni varð ekki svefnsamt um nóttina, hélt að bíllinn myndi hreinlega fjúka með manni og mús út í buskann. Eftir miklar fortölur og ýktar lýsingar á þyngd bílsins róaðist hún þó loks og um sexleytið um morguninn dró úr veðri svo sofa mætti þokkalega. Við vorum síðan vöknuð um tíuleytið að morgni. Þá var stafalogn, þokumóða og sólarglampi yfir. Eftir morgungöngutúr og –kaffi kvöddum við þá sem vaknaðir voru og héldum heimleiðis. Vegna veðurblíðunnar fórum við lengstu leið, niður að ströndinni við Þjórsárósa og vestur um sveitir að Stokkseyri með viðkomu að rjómabúinu á Baugsstöðum. Um Ölfusárbrúna til Þorlákshafnar og Þrengslin heim. Það stóð heima að þegar við ókum Sandskeiðið vorum við meðal bíla sem lagt höfðu af stað heim seinna en ekið beina leið.
Eftir þessa ferð var bíllinn tæmdur af dýnum og sessum en sláttuvélin, reiðhjólin o.fl. sett inn í staðinn. Helgina eftir var svo bíllinn ferjaður að Stærri-Bæ í Grímsnesi, settur inn í fyrrv. refabú og númer tekin af. Vetrardvölin var hafin.............







2004

Bíllinn sóttur 8 apríl, á skírdag.


10. ferð, 23 apríl.

Við Bergrós Halla lögðum af stað á föstudegi um kl. 6 áleiðis eitthvað norður. Við tókum smá nestispásu á Holtavörðuheiðinni í þokusudda og rigningu. Sýndist betra norðar svo við héldum áfram. Eftir aðra nestispásu á Blönduósi héldum við áfram og nú til Sauðárkróks. Þar vorum við um kl. 11 að kvöldi. Við lögðum við skúrinn á tjaldsvæðinu,sem var lokað eins og á Blönduósi enda snjór varla farinn og greinilegt að sumarið sem komið var sunnan heiða átti enn nokkuð í land þar nyrðra. Á tjaldsvæðinu var fyrir einn húsbíll, nýlegur og á honum fullorðin hjón.Hlýtt var í veðri og engin þörf á kyndingu um nóttina. Að morgni skyldi þó gangsetja þotuhreyfilinn og hita upp. En viti menn: ekkert gerðist! Reyndi aftur en allt fór á sama veg.Blásarinn fór augnablik í gang en dó svo aftur. Enginn bruni. Hvur assgotinn var nú að? Stubba fór í vaskinn að þvo sér. Vatnið rétt lak úr krananum. Ljótur grunur læddist að mínum sem kveikti á útvarpinu í hjónasvítunni og skrúfaði svo frá vatnskrananum. Útvarpið sendi frá sér gaul og steindó. Fleiri álíka prófanir gerðum við áður en ég trúði niðurstöðunni: aukarafkerfið var rafmagnslaust. Fíni rúllugeymirinn frá Patreks(tapreks)firði hafði svikið.Hann hafði þóst fullhlaðinn þegar lagt var upp en entist svo ekki lengur en þetta. Sannarlega illt í efni. Nóg vatn á tanknum en ekki hægt að ná því upp í vaskinn nema í dropatali. Töfralausnin lá á bensínstöðinni: 15 lítra plastdunkur með stút.Fylltur á þvottaplaninu og hellt handvirkt í vaskinn. "Brilljant" eins og Vala Matt segir. Fulla ferð áfram út Höfðaströnd, fram Fljót og til Ólafsfjarðar. Lágheiðin blaut, sagði Vegagerðin en við sáum ekki það vatn. Heimsóttum Lóló frænku og Kidda uppá kaffi og vöfflur en þegar kvatt hafði verið og halda skyldi af stað lá vatnstaumur undan bílnum og niður Hornbrekkuveginn. Tært vatn. Ekki frostlögur. Lestin opnuð: allt á floti! Nýi vatnsbrúsinn var gallaður og mestallt vatnið var farið niður á lestargólfið. Sem betur fór hafði ekkert skemmst. Ég fann gatið og sneri því upp. Ókum inn á Dalvík og reyndum að gleyma rafmagns-og vatnsleysinu. Tókum Svarfaðardalshringinn og héldum síðan til Akureyrar. Náttuðum á bílastæðinu við tjaldsvæðið. Allt lokað eins og annarsstaðar. Kynti um nóttina með eldavélinni. Eftir góðan morgun í sundparadísinni héldum við áleiðis suður með viðkomu á Skagaströnd. Sú stutta hafði ætlað að hitta Hallbjörn. Hann var í útsendingu en Kántrýbær lokaður svo við komumst ekki inn. Hún varð fyrir vonbrigðum því þetta er í fjórða sinn sem hún ætlar að hitta Hallbjörn en tekst ekki. Gengur eflaust næst. Suðurferðin var síðan tíðindalaus að mestu, sól og þurrt úr Víðidalnum og heim. Fáa húsbíla sáum við á ferð, aðeins fyrrnefnd hjón á Króknum og rauðan Bens 309 sem við mættum á suðurleið á föstudagskvöld og á norðurleið seinnipart sunnudags. Hann hafði engin félagsmerki og heilsaði ekki til baka. Í Borgarnesi var farið í laugina til að mýkja skrokkinn eftir aksturinn og stubban prófaði allar rennibrautirnar mörgum,mörgum,mörgum sinnum..............

11. ferð 29. maí. Hvítasunnan



Ísfirðingurinn lagði upp um áttaleytið á laugardagsmorgun áleiðis norður. Beygði útá Skarðshamarsveg í Borgarf.og þræddi bæjaleiðina upp að Króki. Leit aðeins á stórhýsi sem verið er að byggja ofan vegar, glæsileg bygging. Ekki var farin hefðbundin leið út Hrútafjörðinn heldur út eftir Heggstaðanesinu og yfir það. Þar á hálsinum passaði akkúrat að horfa á tímatökuna í Formúlunni svo út sveif rafstöðin nýja (þvílíkt þarfaþing), sjónvarpið í gang og 1944 í örbylgjuofninn! Að loknu sjónvarpsglápi var áfram haldið og inn Miðfjörðinn frá Laugabakka. Þar sem vegurinn skiptist völdum við Austurárdal og var haldið inn eftir honum svo langt sem þorandi var vegna eggjagrjóts. Ég sneri u.þ.b. 500 mtr. frá innsta bæ, Aðalbóli og hélt til baka og nú fram í Núpsdal. Leit á kirkjuna að Efra-Núpi og leiði Vatnsenda-Rósu og fannst að meiri sóma mætti sýna hvorutveggja. Hélt til baka vestari leiðina niður Miðfjörð og inn í Vesturárdal. Væri ég laxveiðimaður hefði ég eflaust kolfallið fyrir Vesturdalsá, svo fallegir eru hyljirnir. Sneri skammt frá innstu bæjum og hélt til baka og út á Hvammstanga. Tíminn leið hratt og ég náði á tjaldsvæðið þar rétt fyrir kvöldmat. Fékk stæði og tengdi raflögn (stæði kr.500, rafmagn frítt),hankaði hana upp á staur og hélt af stað aftur fyrir Vatnsnes. Veðrið var hreint dýrlegt og ég tók a.m.k. 3 tíma í að dóla fyrir nesið. Kom á miðju kvöldi aftur til Hvammstanga, tengdi bílinn og gisti í góðum hópi fellihýsa. Sunnudagurinn byrjaði með sólskini og förinni var heitið inn í Víðidal. Leit á kirkjuna að Víðidalstungu. Innar var verið að endurbyggja brúna yfir Kolugljúfur svo aðeins var fært á vaði. Lagði ekki í það og þræddi því aðeins bæina austan ár. Dvaldi við Kolugljúfur í 2 klst.(eða þann tíma sem Formúlan tók) Gljúfrið er hreint stórkostlegt og gaman að ganga meðfram því. Eftir Víðidalinn var haldið í Vatnsdal og hringurinn ekinn rangsælis. Ég hef aldrei komið þarna áður og var alveg heillaður af náttúrufegurðinni og snyrtilegum býlum sem flest eru ævafornir sögustaðir. Það var oft stoppað til að lesa í ferðafélagsbókinni (A-Hún.´64.) og líta á kortin. Eftir Vatnsdalinn var haldið á Blönduós og komið þangað um kl. 18. Fékk gistipláss og raftengingu (kr. 500+250) og brasaði kvöldmat fyrir einn. Tók niður reiðhjólið og flengdist um allan bæ á því, leit m.a. á gömlu kirkjuna og fleiri hús vestan ár. Heldur fjölgaði á tjaldsvæðinu með kvöldinu enda mikil umferð. Á mánudagsmorgninum var kominn bíll við hliðina á mér. Þar var kominn gamall vinur frá Neskaupstað sem var á heimleið. Þar sem veðrið var með besta móti og ekkert lá á suður var bróðurparti dagsins eytt í góðum félagsskap en við lögðum síðan báðir af stað um þrjúleytið, annar áleiðis suður, hinn austur. Af Holtavörðuheiðinni var aftur haldið inn á Skarðshamarsveg við Krók en nú aðeins hálfa leið niðurúr og yfir Grjótháls. Það er seinfarin og erfið leið en geysilega falleg og mikið útsýni yfir Borgarfjarðarhéruð. Fikraði mig (og bílinn) niður í Þverárhlíð og hélt út á þjóðveg 1 við Bauluna. Þar sem enn var nokkuð eftir af ferðagleðinni var ekið um Hvalfjörð, Miðdal í Kjós og að síðustu Hafravatnsleiðin. Eina rigningin í ferðinni voru nokkrir dropar á mánudeginum í Húnaþingi og enn nokkrir á síðustu metrunum heim.

12. ferð 4. júní, sjómannadagshelgin.

Lagt af stað úr bænum á föstudagskvöld og ekið í rólegheitum fyrir Hvalfjörð áleiðis í Stykkishólm. Í Borgarnesi var bílstjórinn farinn að kenna syfju og þar sem hann var einn á ferð var tilvalið að leggja á tjaldsvæðinu og halla sér. Nóttin var róleg. Að morgni var haldið að Hyrnunni til að versla í matinn og er aftur var komið út að bíl var gírolíupollur undir honum og mátti sjá drjúpa niður. Bílstjórinn bölvaði en ákvað að láta ekkert eyðileggja ferðina og hélt af stað uppeftir, með hálfum huga þó. Ofarlega á Mýrunum var stöðvað og gáð undir bílinn. Gírolían flóðlak af og greinilegt að eitthvað mikið var að. Bilunin var skrifuð á pakkdós og enn var bitið á jaxlinn og haldið áfram. Við verkstæðið að Vegamótum var stoppað og bankað uppá. Þar var ákaflega liðlegur maður sem bætti olíu á kassann, en hætti þegar olían rann jafnharðan af. Eftir að hafa atað verkstæðisgólfið olíu hélt okkar maður áfram og náði í Hólminn uppúr hádegi. Strekkingsvindur var en þokkalega hlýtt og bjart. Sonurinn og vinkona hans voru einnig á leið í Hólminn á L300 og lögðu á tjaldsvæðinu rétt hjá Ísfirðingnum. Laugardeginum var svo eytt í hjólatúra og heimsókn til Löllu og Gulla að vanda. Fylgst með hátíðahöldum og síðan farið snemma í háttinn. Á sunnudagsmorgni var áfram hjólað um nágrennið og sundlaugin heimsótt. Tímanum eytt fram til kl. 17 en þá var komið að eyjasiglingunni árlegu sem Sæferðir bjóða uppá. Siglingin var stórkostleg að vanda enda veðrið gott. Þegar í land kom var ferðbúist og haldið af stað heimleiðis. Komið við að Vegamótum þar sem maðurinn greiðvikni bætti enn á gírkassann og síðan haldið áfram suður. Við Lyngbrekku var L300 kominn að og tók hann Ísfirðinginn í tog alla leið að Hvalfjarðargöngum. Þar var ekið í gegn fyrir eigin vélarafli en aftur tekið í tog er upp kom og dregið að Þingvallavegamótum. Þaðan var ekið heim. Þetta var gert til að hlífa gírkassanum við skemmdum því olían hafði mestöll lekið af á leiðinni frá Vegamótum að Lyngbrekku. Við athugun reyndist gat á gírkassahúsinu og var kassinn tekin úr heima í stæði og viðgerð framkvæmd.

13. ferð 19. júní.

Lögðum af stað, pabbi og stubba á laugardegi áleiðis eitthvert austur fyrir fjall. Fyrsti viðkomustaður var dýragarðurinn að Slakka í Laugarási. Eftir góða stund þar var haldið niður að Brautarholti á Skeiðum en þar er afar góð sundlaug með steyptum skjólveggjum allan hringinn og góðum heitum potti. Þar eyddum við u.þ.b. hálfri annarri klukkustund í stórum hópi fólks en dóluðum því næst að Hellu þar sem ætlunin var að gista. Okkur leist ekki alveg á aðstöðuna og ókum að Hvolsvelli. Þar var fátt á tjaldsvæðinu og við komum okkur fyrir á góðum stað. Grilluðum kvöldmat og skruppum svo hjólandi í bæinn. Litum í ferðabækur og kynntumst Stórólfi á –Hvoli og fleiri Njáluhetjum. Snemma í háttinn og sváfum vel í ágætu veðri. Að morgni var kveikt á sjónvarpi og litið á barnaefni með morgunmatnum en síðan farið aftur út að hjóla meira. Því næst var fótbolti við nærstaddan hund sem endaði á því að hundurinn beit gat á boltann. Eigendur hans bættu boltann með öðrum svo allir voru sáttir. Þegar leið á morguninn litum við inn á Sögusetrið sem var ákaflega fróðlegt fyrir stubbuna. Þaðan héldum við upp að Keldum á Rangárvöllum en gamli bærinn var lokaður vegna jarðskjálftaskemda. Við ókum niður með Gunnarsholti og alla leið niður í Þykkvabæ. Þar lituðumst við um og þræddum ströndina vestur að Háfi og ókum þar upp vegslóða sem var merktur á kort sem punktalína enda aðeins dráttarvélaslóði. Tókst samt að komst í menninguna þá leið og enduðum upp við Landvegamót. Þaðan héldum við uppeftir að Laugalandi og fórum þar í sundlaugina, ágæta laug með pottum og rennibraut. Eyddum síðdeginu þar og lögðum af stað heimleiðis uppúr kl. 17. Áðum við Olísstöðina á Selfossi, grilluðum þar kvöldmat og hittum Jón Þór, nýkominn frá Danmörku. Fetuðum troðnar slóðir heimleiðis og komum passlega í háttinn.

14. ferð, 2 júlí.

Ákveðið að fara ”best of” túr í Húnaþing með konunni og stubbu. Þær voru staddar á Spáni þegar síðast var farið og því var bílstjórinn aðeins einn. Nú skyldi sem sagt farið allt það helsta og skoðað vel. Lögðum af stað snemma á laugardagsmorgni og ókum viðsstöðulítið til Hvammstanga. Eftir stutta verslunarferð í kaupfélagið var haldið út með Vatnsnesinu og ekið hægt. Lásum okkur jafnóðum til um það sem fyrir augu bar og notuðum kortin óspart. Höfðum viðkomu að Tjörn og skoðuðum leiði Agnesar og Friðriks. Fórum niður að Hindisvík og einnig niður að Hvítserk. Veðrið þokkalegt en frekar hvasst. ’Okum inn að Borgarvirki og fórum þangað upp. Merkilegt mannvirki og vel varðveitt. Þar sem degi var tekið að halla var farið að huga að náttstað og varð ferðaþjónsutan að Dæli í Víðidal fyrir valinu. Þar var ágætt pláss, raftenging og allt til alls. Við hittum nokkra burtflutta Ísfirðinga sem þarna voru í hópi oddfellowa úr Hafnarfirði. Sváfum eins og ungabörn og í morgunsárið eftir árbít var sjónvarpið dregið fram og horft á fyrstu mínútur Formúlunnar. Þegar sýnt var að stefndi í enn einn Schumasigur var sjónvarpið lokað inni,staðurinn kvaddur og haldið inn að Kolugljúfri. Gengum yfir nýju brúna og niður í gilið við hana. Hreint stórkostlegt. Skoðuðum einnig gilið mun neðar þar sem það var jafnvel enn hrikalegra og mun dýpra. Eftir Kolugljúfur var farið að rigna með köflum svo við dóluðum niður á þjóðveg 1. Þar sem klukkan var aðeins hálftvö var ákveðið að fara niður að Þingeyrum og skoða kirkjuna. Gerðum stutt stopp við Þrístapa í Vatnsdalshólum og litum á aftökustað Agnesar og Friðriks. Komum síðan í hellirigningu niður að Þingeyrum. Fengum góða leiðsögn um kirkjuna og fórum þaðan mun fróðari en áður. Ókum á Blönduós í sömu rigningunni. Skruppum í bakaríið og kaupfélagið og eftir góðan málsverð var lagt af stað heimleiðis og ekið nær viðstöðulaust, að mestu í rigningu.

15. ferð, 21.júlí.
Dagur 1.
Eftir Gullmótshelgi í Kópavogi og mánudag í hvíld þar eftir var enn lagt af stað á þriðjudagsmorgni. Hvert sæti var setið þar sem Líneik, vinkona Áróru, fékk að sitja í til Akureyrar þar sem hún á skyldfólk. Aðeins var stoppað stutta stund í Borgarnesi, þar sem allir fengu ís að vanda og kókfótboltinn var sóttur fyrir Bergrós, að Brú í Hrútafirði og Blönduósi. Heldur lengra stopp var tekið á Sauðárkróki og grillað í kvöldmatinn en síðan haldið að Hólum í Hjaltadal þar sem önnur vinkona Áróru dvaldi sumarlangt með hluta sinnar fjölskyldu. Þar var ákveðið að gista eina nótt og sváfu vinkonurnar allar saman í heimahúsi en við fjögur gistum í bílnum á tjaldsvæðinu. Að kvöldi þriðudagsins fengum við leiðsögn um skólahúsið,sem var ákaflega fróðlegt og skemmtilegt að skoða. einnig litum við á gamla torfbæinn og aðstöðu fornleifafræðinga sem störfuðu við uppgröft á staðnum ásamt fjölda muna sem þeir höfðu raðað upp til sýnis.
Dagur 2.
Miðvikudagsmorguninn var bjartur og sólríkur. Við fórum í skoðunarferð í Hólakirkju undir leiðsögn. Stórmerkilegt og sögufrægt hús sem sannarlega var gaman að skoða, sérstaklega minningartöflur gömlu biskupanna sem hvíla undir kirkjugólfinu. Um hádegisbil voru stelpurnar tilbúnar til brottfarar. Þær kvöddu vinkonuna og hennar fólk og síðan var haldið af stað út Höfðaströnd og komið við á Hofsósi. Varla var ferðafært vegna hita og hvert tækifæri notað til að komast út úr bíl. Eftir góða stund á Hofsósi var ekið áfram áleiðis út í Fljót. Þaðan var ekið frameftir og yfir Lágheiði. Fórum rólega niður í Ólafsfjörð og bílstjórinn reyndi að miðla sinni takmörkuðu visku til áhafnarinnar um þennan fæðingarbæ Bríetar ömmu. Við hittum Lóló frænku og þáðum góðgerðir. Það var sérstaklega gaman að geta sýnt Lóló alla fjölskylduna í einu og ekki síður skemmtilegt að geta kynnt upprunann öllum börnunum saman og sýnt þeim Jaðar, húsið sem Theodór afi byggði yfir sig og sína. Að heimsókn lokinni var farið í sundlaugina og buslað/flatmagað þar í sólinni í hálfan annan tíma. Það var farið að líða að kvöldmat þegar við brunuðum (brunuðum??) inn Eyjafjörðinn en við renndum samt niður að Hjalteyri og tókum okkur ferðahlé við gömlu síldarverksmiðjuna. Komum til Akureyrar um níuleytið og fórum beint til afa og ömmu Líneikar. Þar var Bryndís mamma hennar stödd og að endingu var ákveðið að bæði Áróra og Bergrós skyldu gista hjá þeim svo við vorum aðeins þrjú eftir í bílnum. Vegna okurverðlagningar á tjaldsvæðinu fundum við okkur plan niðri viðhöfn og gistum þar. Þar var fyrir amerískur pickup með camperhúsi, greinilega með sömu skoðun á verðlagi tjaldsvæðisins. Nóttin var róleg.

Dagur 3.
Þegar dömurnar voru vaknaðar og ferðbúnar var farið í Hagkaup og verslað í nesti. Síðan var haldið að ísbúðinni Brynju þar sem prófa skyldi hinn margrómaða ”Brynjuís”. Er skemmst frá að segja að annan eins óþverra höfum við aldrei bragðað! Ísinn frægi reyndist útþynnt mjólkursull og þar sem u.þ.b. helmingurinn virtist vera vatn mátti finna ískristallana eins og sand í munninum. Oj, bara!
Frá Akureyri var síðan haldið austur um áleiðis að Mývatni. Við sáum Goðafoss í speglunum, einhverra hluta vegna fór hann fram hjá okkur og bíður skoðun hans því betri tíma. Við Mývatn var steikjandi hiti enda nánast heiðskírt. Við dvöldum góða stund við Skútustaði en fórum því næst að Dimmuborgum og eyddum þar u.þ.b. 2 ½ klst. á gangi um svæðið. Eftir stutta skoðunarferð um svæðið við Reykjahlíð var stefnan enn tekin austur á við og skyldi áfangastaðurinn vera Vopnafjörður. Þangað komum við um 21.30 í ágætu veðri en þoka var á heiðinni sjálfri. Komum okkur fyrir á litlu, vel búnu gistisvæði og náttuðum þar.
Dagur 4.
Föstudagsmorgunn. Fallegt veður, þokuslæða að morgni sem létti er á leið og sólin tók yfir. Renndum upp í Selárdal og litum á sundlaugina. Þar hefur mikið verið lagað til og bætt svo nú eru auk laugarinnar tveir heitir pottar og sólbaðsaðstaða. Því næst var farið niður að Svínabökkum og Jói í Arnardal heimsóttur.Börnin voru heima en frúin ekki. Dvöldum eina tvo tíma á staðnum en lögðum af stað um þrjúleytið áleiðis út fjörð og yfir Hellisheiði eystri. Aksturinn yfir hana tók góðan klukkutíma og var samfelld upplifun, svo gott var veðrið og útsýnið stórkostlegt. Héraðsflóinn opnaðist eins og landakort og yfirsýnin einna líkust sem úr flugvél. Þegar niður í Héraðið kom tók við leiðin upp Jökulsárhlíð, falleg bæjaleið. Við höfðum smá viðdvöl við kirkjuna að Sleðbrjót og skoðuðum hana. Næsta áning var við nýju Jökulsárbrúna. Þar var nestistími og við fylgdumst með umferðinni sem var gríðarleg í báðar áttir. Veðrinu hrakaði ört þegar nær dró Egilsstöðum og þar var komin rigning og þokusuddi. Mannskapurinn ákvað að fara Fjarðarheiðina yfir til Seyðisfjarðar og fara þar í sund. Á heiðinni var blindþoka og rigningarsuddi og því seinfarið. Laugin var opin til kl.21 og við fullnýttum okkur tímann. Eftir það var litið í sjoppuna og ekinn hringur um bæinn. Við höfðum litið á tjaldsvæðið og ákveðið að vera annarsstaðar. Fundum okkur stórt malarplan utarlega í bænum og gistum þar.Varla höfðum við dregið gardínur fyrir glugga þegar að bar mann sem fór mikinn og kynnti sig sem tjaldvörð staðarins. Hann upplýsti okkur um að malarplanið tilheyrði tjaldsvæðinu og því þyrftum við að borga! Það fauk í okkur og við ákváðum að færa okkur. Það væri þá ekki hægt nema fara úr bænum, var okkur tjáð. Í lögreglusamþykkt staðarins væri nefnilega klásúla sem bannaði gistingu utandyra nema á tjaldsvæðinu – og þar skyldu menn borga. Hins vegar gætum við allra náðarsamlegast fengið að liggja þarna á malarplaninu fyrir skitinn fimmhundruðkall þar eð enn vantaði þar alla hreinlætisaðstöðu! Þar sem allt var tilbúið til svefns og Arnar og Áróra auk þess farin í göngutúr út í bæ reiddum við fram féð og lögðumst til svefns.
Dagur 5.
Laugardagurinn var öllu bjartari en kvöldið áður. Eftir morgunverð var haldið til baka yfir heiðina og nú, þegar skyggnið var betra, mátti víðsvegar sjá meðfram veginum skilti með áletruninni: ”No camping-water preservation area” Þetta var svo sem gott og blessað en skyldu seyðfirskar rollur kunna að lesa? Tæplega, því nóg var af þeim þarna á vatnsverndarsvæðinu. Þar mátti einnig líta mölunarvélar ásamt ýtum,vörubílum og vélskóflum. Framan við tækin var svo auðvitað enn eitt skiltið:”water preservation area” Jamm!
Þegar yfir á Hérað kom var þar sama óþverraveðrið og daginn áður. Lágskýjað, þoka og rigning. Við ákváðum að aka upp fyrir Löginn og fórum því yfir til Fellabæjar og þar fram eftir. Suddinn breyttist í ausandi rigningu sem hélst langleiðina uppeftir. Áðum við Skriðuklaustur og litum inn. Ætluðum að kaupa okkur kaffi en þar var þá rafmagnslaust svo við gengum gegnum húsið, skoðuðum eftir föngum og drukkum kaffi í bílnum. Enn var rigning og lítið hægt að vera úti við. Við ákváðum að renna inn að Valþjófsstað og skoða kirkjuna. Þar brá svo við að birti og var hið besta veður meðan á dvölinni stóð. Uppi á fjallsbrúninni ofan bæjar var verið að setja saman borinn stóra fyrir virkjunarframkvæmdirnar og blasti ferlíkið við neðan frá kirkjuhlaðinu. Eftir viðdvöl ókum við síðan áleiðis niðureftir og nú sunnan fljóts. Í Atlavík var margt fólk í gistingu og enn rigning. Röltum um víkina og litum á Lagarfljótsorminn (skipið) sem þar lá við bryggju. Höfðum smá viðkomu að Hallormsstað en ókum því næst sem leið lá niður í Egilsstaði án frekari viðstöðu. Versluðum nauðsynjar í Bónus og ákváðum að vegna veðurs yrði ekkert frekar skoðað. Tókum því stefnuna á næsta náttstað, Neskaupstað. Á Fagradalnum var þoka og ausandi rigning sem hélst alla leið niðureftir. Mótvindur á Oddsskarðinu ásamt miklum bratta og þungum bíl markaði okkur tæpan klukkutíma frá Eskifirði út að tjaldsvæðinu yst í Neskaupstað. Heimsókn til Bóasar og Sigrúnar toppaði daginn því dömurnar voru viðstaddar fæðingu fjögurra kettlinga og Arnar myndaði allt saman í bak og fyrir. Kvöldinu lauk svo í ausandi rigningu á tjaldsvæðinu þar sem vatnið var farið að safnast í tjarnir.
Dagur 6.
Sunnudagsmorguninn lofaði ágætu. Við fengum okkur hjóltúr í bæinn og Arnar skoðaði gamla leikskólann sinn (að utan). Við skruppum í sund og síðan aftur í kaffi til Bóasar. Litum á smábátahöfnina, snjóflóðagarðinn og margt fleira. Dagurinn leið hratt og við hefðum í raun alveg þegið að eyða meiri tíma í bænum. Göngu- og hjóltúrar um kvöldið og í háttinn um miðnættið.
Dagur 7.
Frábært veður. Vorum vakin að morgni þegar ”drengurinn” bankaði uppá rétt til að heilsa og kveðja. Versluðum í gömlu búðinni ”okkar” á bökkunum og héldum þvi næst af stað yfir skarð. Höfðum stutta viðdvöl á Eskifirði og aftur við völvuleiðið á Hólmahálsinum. Þar streymdu fram hjá okkur ”Hymerar” í langri röð, allir á leið til Neskaupstaðar. Héldum inn á Reyðarfjörð og hinkruðum í bænum þar til Stríðsminjasafnið opnaði. Þar skoðuðum við í hálfan annan tíma stórmerkilegt safn sem afar gaman var að sjá. Frá Reyðarfirði var ekið til Fáskrúðsfjarðar. Skrúðurinn blasti við, eilítil þoka á toppnum. Frekar hvasst á nesinu,úfinn sjór úti fyrir og þokuslæðingur með sjónum en hreint Spánarveður innar í firðinum. Stoppuðum hjá tengdafeðgum sem voru hvor með sinn húsbílinn í smíðum, annar með Coaster, hinn með Rósu, og áttum við þá gott spjall. Gengum niður að grafreit frönsku sjómannanna. Hittum hóp franskra ferðamanna á húsbílum. Ókum flestallar götur í bænum áður en stefnan var tekin suður á við til Stöðvarfjarðar. Það sama gilti áfram, strekkingur og þokuslæða á nesjum svo ekki sást til hafs en sól og blíða er innar dró. Ókum gegnum Stöðvarfjörð, litum þó aðeins inn í einu verslun staðarins, sem minnti á kaupfélagið á Borðeyri: vörur í öllum hillum en sumsstaðar meter á milli hluta. Í matvöru aðeins það allra nauðsynlegasta. Ákváðum að geyma steinasafn Petru til betri tíma og héldum áfram til Breiðdalsvíkur. Þegar þangað kom var vindstrekkingurinn orðinn viðvarandi. Við komum okkur fyrir á litlu, snyrtilegu tjaldsvæði bak við hótel Bláfell, fórum inn í afgreiðsluna og spurðum um verð á gistingunni. Tjaldsvæðið reyndist frítt og þar sem aðstaðan var í alla staði snyrtileg og óaðfinnanleg þökkuðum við fyrir okkur með því að kaupa okkur kvöldverð á hótelinu. Deginum lauk með löngum göngutúr um þorpið.
Dagur 8
Vaknað að morgni í þokkalega björtu en heldur hvassara en deginum áður. Eftir að hafa tekið saman og gert ferðaklárt litum við inn í versluninna á staðnum þar sem ungur afgreiðslumaður nánast svaf fram á borðið. Sama var uppi á teningnum og í kaupfélaginu á Borðeyri: aðeins örfáar vörutegundir á boðstólum en þeim dreift um hillurnar svo mun meira virtist til en í raun var. Athygli vöktu einnota plastglös sem seld voru í lausu á 15 kr. stk. að mig minnir. Greinilega lítil sala í þeim því efstu glösin í opinni pakkningunni voru orðin gul af elli! Eftir þessa heimsókn var enn haldið af stað. Í fjarðarbotninum var hávaðarok og sand- og sjófok yfir veginn. Við börðumst áfram og náðum út á nesið sunnanvið og inn í Berufjarðarmynnið. Þar tók við rjúkandi lens inn með ströndinni og líkt og daginn áður skánaði veðrið er innar dró. Innan við miðjan fjörð var veðrið orðið gott og er nálgaðist botninn var brostin á blíða. Virtum fyrir okkur veginn um Öxi sem liðaðist upp úr firðinum og mættum tveimur rútum sem voru að koma þar suðuryfir. Áðum góða stund við fallegan foss í fallegu gili sunnan fjarðarbotnsins þar sem mun heita Fossárvík.Gengum upp í árgilið og tókum myndir af því. Eftir áninguna var áfram haldið og stefnan tekin á steinasafnið að Teigarhorni. Þar kom til okkar kona sem opnaði safnið, sem einnig er söluskáli, fyrir okkur. Steinarnir voru hreint stórkostlegir og Bergrós, sem nýlega hafði lesið um og séð myndir frá þessum stað fékk að kaupa sér stein til minningar. Fékk að auki einn í kaupbæti. Næst var haldið að Djúpavogi og að vanda var hávaðarok úti við sjóinn. Dvöldum stutta stund á staðnum sem, þrátt fyrir fögur fyrirheit á fallegum auglýsingamyndum, náði alls ekki að heilla okkur. Á Djúpavogi var ákveðið að ferðalagið væri orðið nógu langt,enda ferðaþreytu farið að gæta hjá sumum. Veðrið hafði ekki verið upp á sitt besta og spáin lofaði engu betra svo það var einfaldlega ekið í striklotu í bæinn, Höfn í Hornafirði sleppt svo og Skaftafelli enda sá varla til jökla fyrir mistri og enn síður til sjávar. Áð var við Jökulsárlón þar sem kom í ljós að sprungið var á innra afturdekki hægra megin. Við því var ekkert að gera nema treysta á guð og lukkuna. Hlífðum hjólinu eins og hægt var en vindurinn stóð upp á vinsti hlið og var hvass á köflum svo hjartað tók nokkur aukaslög í verstu hviðunum.Náðum klakklaust að Klaustri en úr því var veðrið skárra. Við Vík var komið besta veður og mun bjartara. Akstur þaðan og heim tók þrjá tíma með einu stuttu stoppi og við komum í Lyngbrekkuna síðla kvölds á þriðjudegi. Hringnum hafði verið lokað.

16 ferð, 4.ágúst.
Eftir að hafa unnið tvo daga eftir verslunarmannahelgi var enn haldið af stað og enn í norðurátt. Áfangastaðurinn var Siglufjörður þar sem fara skyldi fram pæjumót í fótbolta. Við lögðum af stað eftir vinnu ákváðum að aka meðan við hefðum úthald. Við Hvammstangavegamótin var beygt og náttstaður fundinn á bryggjunni í skjóli við stóran gám.Veðrið var ágætt, bjart og lygnt og spáin fyrir helgina var framar vonum. Eftir ágætan nætursvefn var litið inn í kaupfélagið og nestað en síðan haldið af stað og ekið á Blönduós. Veðrið var afar gott, sól og blíða. Á Blönduósi var stutt áning en síðan ekið út með og yfir Þverárfjall til Sauðárkróks. Þar var að vanda farið í uppáhaldsbakaríið og tekin góð kaffipása. Eftir gott stopp var ekið sem leið lá út Höfðaströnd og Haganesvík og beygt út með fjallinu í átt að Sigló. Komum þangað í sól og steikjandi hita. Fundum ágætt stæði með raftengingu fyrir bílinn og mörkuðum okkur það með rafmagnssnúrum ofl. Litum á mótssvæðið og skoðuðum bæinn sem var óðum að fyllast af fólki. Kíktum í búðir og fengum okkur ís. Dagurinn leið hratt og mótið var sett um kvöldið. Þegar skyldi fara að sofa komumst við að því að fólkið sem fyllt hafði stæðin næst okkur var barnlaust því þeirra börn gistu með sínu liði úti í bæ. Þetta voru þrenn eða fern hjón og allt stefndi í mikið partýhald. Auðvitað var lítill svefnfriður í grenndinni. Því miður var fátt til ráða, öll pláss að verða full og alls ekki gefið að ná í rafmagn annarsstaðar. Við urðum því að umbera næturhávaða og truflun frá fólki sem virtist álíta viðburðinn fylliríistækifæri fyrir foreldra fremur en fótboltamót fyrir börn. Sjálft mótið hófst svo með morgunverði snemma á föstudagsmorgun og var raðað niður í hópa. Þeir sem lokið höfðu máltíð fóru síðan beint inn á völl og hófu leiki. Leikið var til kl. 17 og var þá gert hlé fram að kvöldvöku á torginu. Þar spilaði hljómsveit og var mikil gleði og gaman. Kvöldvökunni lauk kl. 23 og þá var farið í háttinn. Gleðskapur nágrannanna frá því kvöldið áður var endurtekinn eins og ekkert væri sjálfsagðara. Við vorum því hálfilla sofin að morgni laugardagsins. Veðrið bætti það upp, sannkallað Spánarveður. Leikir dagsins gengu vel og um kvöldið var kvöldvakan endurtekin við mikla lukku. Hvað eftir annað þurfti að rýma sviðið því fátt þótti dömunum meira spennandi en að fá að standa eða sitja innan um spilamennina. Kvöldinu lauk svo með brennu og flugeldasýningu sem reyndar fór eitthvað úr böndunum því þegar yfir lauk logaði hálf hlíðin af sinueldum vegna flugelda sem sprungu fyrr en skyldi. Sunnudagurinn hófst með þoku sem létti er leið á morguninn og Spánarveðrið skilaði sér aftur. Leikið var fram undir kl. 15 en þá hófst verðlaunaafhending og síðan var þessu velheppnaða móti slitið. Við höfðum gert allt ferðaklárt fyrir mótsslit og gátum því lagt af stað heimleiðis strax að þeim loknum. Heimferðin gekk vel og við renndum inn Lyngbrekkuna rétt um kl.22.

17. ferð, 11 ágúst.
Af stað að kvöldi miðvikudags og áfangastaðurinn var Ísafjörður. Áróra var fyrir vestan avo við vorum aðeins þrjú á ferð. Ákveðið var að aka til kl 23 og skyldi þá áð, sama hver staðurinn væri. Rétt fyrir 23 vorum við í Búðardal og litum þar aðeins á tjaldsvæðið en héldum því næst áfram. Spölkorn norðan við Búðardal er spennistöð og við hana stórt malarplan. Þar var ákveðið að nátta og bílnum lagt, allt gert klárt og skriðið undir sæng. Um nóttina hvessti verulega og undir morgun vaknaði ekillinn við að miðstöðin átti í erfiðleikum og skömmu síðar sló niður í henni með tilheyrandi ólykt. Það var því ekki um annað að ræða en að rífa sig á fætur, setja í gang og snúa bílnum. Það tókst án þess að stubban vaknaði en konan rauk upp með andfælum. Eftir þessa aðgerð var dvölin skárri og náðist að dotta eitthvað frameftir morgni. Um ellefuleytið var síðan allt tilbúið til brottfarar.Veðrið ágætt, vindinn hafði lægt að mestu, sólarglampi og þurrt. Höfðum viðdvöl við Bjarkalund og kíktum í berjamó. Klöngruðumst síðan Töglin og Þorskafjarðarheiðina sem var ágæt innantil. Hestakleifin var sömuleiðis sæmileg og ferðin tíðindalaus þar til í vestanverðum Skötufirði. Þar var unnið að vegabótum og illfært á köflum vegna grjóts og ójafna. Rétt utan við Eyri gerðist það: allt í einu fór bíllinn að svaga mikið yfir á hægri hliðina og í speglinum mátti sjá ytra hjólið fletjast nær alveg út. Þetta var hjólið sem hafði borið bílinn heim úr löngu ferðinni þegar sprungið var á því innra og við töldum okkur nánast eiga líf að launa. Nú hafði það mætt sínu skapadægri og vegna úrtölumanna á dekkjaverkstæðum fyrir sunnan hafði verið haft minna loft en ella í innra hjólinu eftir viðgerð”til að hlífa því”. Nú kom sú hlíf sér verulega illa því ytra hjólið var loftlaust og það innra alltof lint. Við ókum eins varlega og unnt var úteftir til Kristjáns á Hvítanesi og heim að bæ til að fá pumpað í. Þar mætti okkur annað áfall. Eftir öll þau ár sem Kristján hefur búið þarna og hjálpað vegfarendum í tugavís kom í ljós að hann hafði aldrei eignast stút til að pumpa í dekk! Hann átti ágæta loftpressu en á endanum var aðeins blásturspíss. Þetta var vonlaus búnaður til að pumpa 50 pundum svo ekki var um annað að ræða en halda áfram á gönguhraða og vonast til að hitta vörubíl sem gæti pumpað í. Úti á nesinu hittum við einn sem hafði því miður ekki þann búnað en benti okkur á vinnubúðir inni í Hestfjarðarbotni þar sem væri bíll með pumpu. Áfram var haldið og loks náðum við inn í botn. Þar fór allt eins og sagt hafði verið, lipur náungi á Scaniu pumpaði í innra dekkið fyrir okkur og nú var engu hlíft: 70 pund fóru í dekkið, nóg til þess að bíllinn hékk uppi. Við ókum restina af leiðinni til Ísafjarðar á 50 km. hraða og þótti gott miðað við síðustu tvo tímana. Komum í bæinn rétt uppúr kl. 16 fimmtudeginum og bíllinn fór beint á dekkjaverkstæðið þar sem Dommi og Rallí-Gummi sviptu hjólinu undan og affelguðu. Dommi rak upp gól þegar hann fann meinsemdina- límmiða innan í dekkinu sem hafði smátt og smátt sært slönguna sundur. Sagðist oft hafa séð þetta áður og eftir umræður taldi hann líklegt að þetta væri það sama og komið hefði fyrir innra hjólið á leiðinni frá Djúpavogi fyrr um sumarið, þ.e. klárlega sú handvömm í samsetningu að fjarlægja ekki miðann. Fyrir einskæra heppni var dekkið heilt sem fyrr og dugði því að skipta um slöngu. Við þóttumst heppin að sleppa svo vel í annað sinn.
Tíminn á Ísafirði leið svo eins og vanalega- heimsóknir til vina og skyldfólks, skroppið í sund til Suðureyrar og kíkt í búðir og bakarí. Veðrið var þetta dæmigerða Ísafjarðarveður, glampandi sól og logn. Fyrr en varði var kominn tími til að halda heim og blásið var til brottfarar um hádegisbil á sunnudegi. Farið var aftur um Djúpið og Þorskafjarðaraheiði hefðbundna leið suður og komið þangað uppúr kvöldmat. Þar með lauk sumarfríi Elínar og alvaran tók við.

18. ferð, 28.ágúst. Veiðiferðin.
Af stað úr bænum f.h. á laugardegi í sól og einmunablíðu. Ekið um Hvalfjörð og m.a. farið niður að Hvítanesi og rústirnar þar skoðaðar. Ekið upp Ferstikluháls og niður Svínadal að vegamótunum við Beitistaði og beygt þar uppeftir í átt að Borgarnesi. Komið við í Hyrnunni að vanda og síðan haldið upp Mýrar og komið að veiðihúsinu við Álftá uppúr kl. 14. Smápása og síðan beint í veiði. Frekar þungbúið þar og rigndi með köflum og þá allmikið. Veður að öðru leyti gott og er á leið birti upp milli skúra og sólin skein. Lítið veiddist eins og fyrri daginn þótt mikið væri reynt. Að kvöldi laugardags var grillað að vanda og að kvöldverði loknum var sagt skilið við gleðskapinn í veiðihúsinu og lagst til svefns í bílnum. Sváfum vel og vöknuðum um áttaleytið að morgni. Eftir morgunmat var búist til veiða en þar sem frekar var hvasst var úthald dömunnar takmarkað og kaus hún því frekar tölvuleik í veiðihúsinu. Sat þar til hádegis en þá var litið til fiskjar og úthaldið klárað. Eftir þrif og frágang var haldið áleiðis heim. Á heimleiðinni var ákveðið að fara niður á Akranes og í sundlaugina. Þar var að ljúka pæjufótboltamóti og fljótlega eftir okkar komu fylltist laugin af pæjum og pottarnir af foreldrum. Við lágum í bleyti í klukkutíma og fengum okkur ís á eftir, sem var svo flottur að Bergrós vildi helst taka mynd af honum. Síðan var haldið heimleiðis og komið þangað mátulega í kvöldmat.

19. ferð, 11. sept. Fljótstungurétt.
Vinkonurnar Birta og Bergrós skelltu sér saman í réttarferð og auðvitað kom ekkert annað til greina en Fljótstunga með gistingu í Húsafelli. Við fórum af stað um hádegi á laugardegi og ókum beint í Húsafell. Þar var stóri loftpúðinn uppblásinn við sundlaugina og ekki við annað komandi en að prófa hann meðan ekillinn gekk frá greiðslu á tjaldsvæðinu og tryggði sér rafmagnstengingu. Að því loknu var haldið yfir Tunguna að réttinni en í leiðinni fylgdumst við með safninu renna niður hraunið af Arnarvatnsheiðinni. Ætluðu kunnugir að þar færu u.þ.b. 5000 fjár, eða álíka og í fyrra. Vinkonurnar skemmtu sér konunglega við að fylgjast með fénu renna í réttina, hlaupandi og hoppandi. Dvalið var við réttina fram að kvöldmatartíma en þá var farið að róast. Héldum til baka að Húsafelli og tengdum bílinn. Kvöldmaturinn var hitaður í örbylgjuofni og síðan héldu dömurnar aftur á loftpúðann. Þar var skoppað fram til kvölds en síðan farið beint í háttinn. Dálítið rigndi um nóttina en að morgni var komið gott veður aftur og fljótt að þorna. Eftir morgunverð var leikið, labbað og lesið fram undir hádegi en þá opnaði laugin og þar með loftpúðinn. Þar var skoppað til kl.15 en síðan haldið niður í Borgarnes og farið í sund. Rennibrautirnar gerðu stormandi lukku og það var fyrst eftir tvo tíma sem til umræðu var að halda heimleiðis. Það voru þreyttar en sælar dömur sem komu heim að kvöldi eftir vel heppnaða ferð. Það kom svo síðar í ljós að báðar höfðu gleymt hluta sundfatanna í klefanum og þurfti að bjarga því símleiðis.

20. ferð,18.sept. Brautartunga.
Fyrri haustferð Húsbílafélagsins og ekillinn aðeins einn á ferð. Svo hagaði til að enginn hafði tök á að fara með vegna anna. Farið úr bænum um hádegi á laugardegi og beint í Borgarnes um göng. Sótti sunddótið sem dömurnar höfðu skilið eftir helgina áður. Verslaði í matinn í Kaupfélaginu og ók að því loknu upp að Baulunni. Þar var beygt yfir í Stafholtstungur og ekið um sveitina að Kleppjárnsreykjum og áfram suður um að vegamótunum við Fosstún. Þar var beygt upp Lundarreykjadalinn og komið um Lund fram að Brautartungu. Þar voru fyrir um 80 bílar á ágætu plani og sparkvelli framan við samkomuhúsið sem er áfast gamalli 12 metra langri sundlaug sem á sínum tíma hefur verið mikið mannvirki og er enn í ágætu standi sem og búningsklefar sem voru nýlega lagfærðir. Laugin var opin félögum og án gæslu eða greiðslu. Þarna var lagst í bleyti og legið fram undir kvöldmat. Athyglisvert hversu fáir notuðu laugina, lengst af voru aðeins 3-4 í sundi í senn. Kvöldverður var hitaður í örbylgjuofni sem knúinn var af bensínrafstöð, enn einni snilldarviðbótinni í Ísfirðingnum. Eftir kvöldverð og útvarpsfréttir,þar sem sjónvarp náðist afar illa, var aftur skroppið í laugina og nú legið til myrkurs. Þá var að hefjast gleðskapur í félagsheimilinu og sýnt að friðurinn væri senn úti. Var því haldið til bíls og kvöldinu lokið í rólegheitum með góðri tónlist. Leit einu sinni upp í hús en var kominn í koju um miðnættið. Var snemma á fótum að morgni og kominn upp í laug um kl 9, þá fyrstur. Smám saman fjölgaði og varð hinn ágætasti félagsskapur að lokum. Um hálftólfleytið var lokið baði og samantekt. Var svæðið kvatt og haldið niður Lundarreykjadal en nú sunnanvert. Þá var fólk byrjað að tínast burt af svæðinu og héldu sumir upp á Uxahryggi. Ísfirðingurinn dólaði niður dalinn að vegamótum og skoðaði sveitabæi. Við vegamótin var kvæðinu hins vegar vent í kross, snúið við og stefnan sett á Uxahryggina. Veðrið var ágætt, bjart með köflum, sólskin og hægur vindur. Skammt undan í norðri voru þó þykkir skýja- og þokubakkar en allbjart til austurs. Vegurinn um Uxahryggi var óvanalega góður og komin útsýnisskífa uppi á hól, nær vegamótum Kaldadalsvegar. Þar var áð smástund en síðan haldið niður í Þingvallasveit um nýbyggðan veg hjá Sandkluftavatni. Á Þingvöllum var sólskin og hiti, og tilvalið að eyða smástund við þjónustumiðstöðina og rétta úr fótunum. Að því loknu var haldið heimleiðis og komið þangað allt of snemma því dagurinn var sniðinn til ferðalaga og straumur bíla á leið út úr bænum.
21. ferð, 2.okt.,Þjórsárver.
Að venju lagt af stað e.h. á laugardegi og ekið beint austur fyrir fjall og, með stuttri viðkomu í Bónus á Selfossi, að Hellu. Ekið frekar hægt,enda umferð skapleg, og reynt að góna sem mest í kringum sig. Það er nú einu sinni þannig að sá sem ekur sér allajafna minnst af umhverfinu og því var reynt að taka það rólega og sameina akstur og gón í þessari ferð. Veður var þokkalegt, hálfskýjað og strekkingsvindur. Spáin var hins vegar afspyrnu ljót, rok og rigning. Á Hellu var sundlaugin auðvitað leituð uppi. Þetta var laug sem ekki hafði verið heimsótt áður og því hrein viðbót í safnið. Tveir pottar og vaðlaug fyrir börnin. Góð búningsaðstaða og þrifalegt í alla staði. Þarna var dvalið í góðu yfirlæti í hálfan annan tíma en síðan hraðbankinn heimsóttur (til að hafa lausafé fyrir ferðanefndina) og því næst ísbúðin. Lagt af stað að Þjórsárveri með svo stóran ís að entist nær alla leið. Ekið var að Þingborg og niður að Villingaholti. Í Þjórsárver voru komnir á annað hundrað bílar og eftir stutta yfirvegun fannst ágætur blettur fyrir bílinn, með raftengingu. Þar var gengið frá snúru og útikertastjakarnir settir upp framan við bílinn til að auðvelda umgang er skyggja tæki. Hitaður kvöldverður og kaffi á eftir. Sjónvarpsfréttir og Gísli Marteinn, afslöppun í koju og góð bíómynd í sjónvarpinu gerðu það að verkum að miklu betra var að dvelja innan dyra en húka úti við varðeld í rigningarsudda. Það varð því úr að ekkert var farið út um kvöldið heldur var geislaspilarinn látinn sjá um síðkvöldsstemningu og síðan sofnað undir miðnætti án þess að heiðra dansleikinn í samkomuhúsinu með heimsókn. Rumskað öðru hverju um nóttina við vindrokur en að morgni var þokkalega stætt og úrkomulítið. Rölt snemma í göngutúr um svæðið og teknar myndir af flotanum en síðan tekin kríublundur í koju. Eftir morgun(hádegis)kaffi var tekið saman enda fólk þá farið að búast til brottfarar. Þótti ómögulegt að fara heim enda sæmilega bjart þó hvasst væri. Því var ekið austur eftir, upp Skeiðaveginn og að Flúðum. Þar var sundlaugin heimsótt og legið í bleyti í eina tvo tíma. Því næst var ekið upp sveit um Brúarhlöð sem leið lá að Gullfossi. Stoppað þar stutta stund því rokið var svo mikið þarna uppfrá að varla var stætt og rauk vatnið úr fossinum yfir bílinn svo nota varð þurrkur. Nokkrir vindbarðir útlendingar voru mættir til að dásama dýrðina en sýndust frekar umkomulausir í rokinu. Það var haldið til baka að Geysi og um sveitina niður að vegamótunum að Reykjum. Þar var beygt og ekið yfir sveitina að Torfastöðum. Smá útúrdúr að Laugarási þar sem haustið var gengið í garð og búið að loka bæði búðinni og Slakka. Það var orðið áliðið dags þegar beygt var upp að Sogsvirkjunum og Grafningurinn ekinn í haustlitadýrð og fallandi hitastigi. Nesjavallavegurinn var baðaður kvöldsól sem entist alla leið heim á hlað.

22. ferð, 9. okt. Snæfellsnes.
Enn lagt af stað um hádegisbil á laugardegi og nú var Bergrós Halla með í för. Farið skyldi á Nesið og fyrsti viðkomustaður var Borgarnes. Þar var farið Bónus og verslað í matinn. Í Borgarnesi var að hefjast Sauðamessa, hátíðahöld til heiðurs sauðkindinni sem tók virkan þátt í dagskránni. Frá Borgarnesi var haldið sem leið lá upp Mýrar og út nes. Veðrið var leiðinlegra er ofar dró, hafði annars verið ágætt sunnan til. Út undir Búðum var orðið verulega dimmt í lofti, þokusúld og hvasst. Á Fróðárheiðinni versnaði veðrið til muna og er norður yfir kom var sannkallað skítaveður. Við börðum út til Ólafsvíkur og leituðum strax uppi sundlaugina. Skelltum okkur inn og ofaní þessa sérkennilegu laug sem notuð var sem íþróttahús á vetrum með því að gólf var lagt yfir sundlaugina. Það var síðan fjarlægað vori og synt til hausts. Laugin var frekar lítil og einn heitur pottur við hana, vinsæll af börnum staðarins sem virtust öll vera samankomin í lauginni, svo þétt var setið. Eftir hálfan annan tíma tókum við saman og lögðum aftur af stað. Renndum hring um þorpið og fengum okkur ís á sjoppunni. Ákváðum að halda til Grundarfjarðar, kíkja þar á laugina og athuga gistiaðstöðuna. Ausandi rigning og hávaðarok var inn nesið og varla ferðafært, svo mikið tók í Ísfirðinginn. Þegar nálgaðist Grundó var stubban sofnuð í sætinu. Það kom því í hlut ekilsins að meta aðstæður. Matið var einfalt: öskrandi rok og rigning, sundlaugin pínulítil útilaug og lokuð í ofanálag. Tjaldsvæðið lokað og læst og hvergi rafmagn að fá. Það var því ekki yfir neinu að hanga heldur haldið áleiðis til Stykkishólms. Á leiðinni vaknaði stubban og var henni gerð grein fyrir aðstæðum. Við náðum í Hólminn rétt fyrir myrkur. Þar var enn hvasst en rigndi ekki. Gunnlaugur og Lalla reyndust ekki vera heima og 10-11 búðin var lokuð vegna breytinga. Það var ekki annað að gera en leggja á tjaldsvæðinu og búast til hvíldar. Við settum út rafstöð og hituðum kvöldmat í örbylgjuofni. Horfðum á sjónvarpið framan af kvöldi en fórum svo snemma að sofa. Áður höfðum við mátt fara út og forða rafstöðinni undan rigningu sem skyndilega skall á. Nóttin var róleg og að morgni hafði lægt mikið. Einn og einn sólargeisli læddist fram og eftir morgunmat lá beint við að skella sér í laugina. Þar lágu tveir tímar og það var komið fram á miðjan dag þegar við lögðum af stað suður. Ókum beina leið með stuttri áningu í Borgarnesi. Renndum í hlað heima um kvöldmatarleytið. Þar með var bíllinn, sem svo frábærlega hafði staðið sig um sumarið og skilað rúmlega átta þúsund kílómetrum, tæmdur af búnaði og settur í geymslu að Stærri- Bæ miðvikud. 13.10 og númer tekin af. Ferðasumrinu 2004 var lokið.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home