Wednesday, May 18, 2005

2005

23. ferð, 14. maí. Hvítasunnan.
Lagt af stað að heiman um kl. 10.30 með viðkomu á Orkunni. Kl. 11 vorum við komin á beinu brautina upp af Hvalfjarðargöngunum. Ferðinni var heitið til Akureyrar, í fermingu hjá Erni. Ókum gegnum Borgarnes og fyrsta stopp var ákveðið að Brú. Þokusuddi og rigningarúði fyrsta kaflann en létti til á Holtavörðuheiðinni. Að Brú var áð í tíu mín. en síðan haldið áfram norður eftir. Næsta stopp var á Blönduósi, í dýrlegu veðri, sól og heiðríkju (að mestu). Fórum í bakaríið og nestuðum okkur. Síðan var ekið án viðstöðu í blíðunni beint til Akureyrar. Komum í bæinn um 16.30 og fórum í Bónus til að versla í matinn. Þaðan í Hagkaup og að síðustu í sundparadísina. Náðum hálftíma í bleyti, áður en lokað var. Tjaldsvæðið við Þórunnarstræti var lokað, okkur til undrunar, en opið var að Hömrum svo við héldum þangað. Frekar fátt var á svæðinu, svo við völdum okkur pláss nærri rafmagnstöflu, fengum okkur tengingu og grilluðum kvöldmat. Að því loknu gerðum við bílinn svefnkláran enda allir orðnir þreyttir. Snemma farið í háttinn. Kalt var um nóttina en góð miðstöð ásamt rafmagnsofni hélt á okkur hita.
Að morgni höfðu hitamælarnir okkar lesið minnsta útihita 0.5 gráður! Veðrið var engu að síður fallegt og hlýnaði með morgninum. Við hlið okkar var kominn fallegur Benz Sprinter með húsbílsyfirbyggingu. Við spjölluðum við eigendurna, sem voru frá Hofsósi og í sinni fyrstu ferð að prófa græjurnar. Síðan fórum við aftur í laugina og busluðum þar í sólinni á annan tíma. Skoðuðum smábátahöfnina og fengum okkur ís í bænum. Þegar leið að fermingarveislunni færðum við bílinn upp í bæ og skiptum um föt. Sparifötin voru tekin fram, og að því loknu var haldið til veislu í Giljaskóla. Höfðum ekki farið í ferminguna sjálfa þar sem fermt var úti í sveit, og sýnt að varla yrði pláss í kirkju fyrir nánustu aðstandendur, hvað þá fleiri.
Veislan var til sóma þeim er að stóðu. 70 – 80 veislugestir nutu góðra veitinga í frábæru veðri. Þegar veislu lauk og menn höfðu kvatt og þakkað fyrir sig, var haldið í bæinn og eftir fataskipti var tekinn bíltúr út að Svalbarðseyri en þangað höfðum við aldrei komið. Frá Svalbarðseyri ókum við inn fjörðinn og sveitina inn að Hrafnagili. Sýndum þeirri litlu jólahúsið og umhverfi. Eyddum afgangi kvöldsins í heimsókn til skyldfólks en héldum til tjaldsvæðis um kl.23. Sama veðurblíðan um nóttina en að morgni höfðu hitamælarnir tveir numið næturfrost uppá -4gráður!!.
Á mánudagsmorgni var búist til brottfarar. Fermingarbarnið og foreldrar þess heimsótt og kvatt. Haldið úr bænum um kl. 13. Við brottför var ákveðið að taka ferðina rólega og líta í einhverra þriggja sundlauga, að Þelamörk, Varmahlíð eða á Blönduósi. Ókum framhjá Þelamörk enda varla komin út úr bænum. Tókum kaffistopp við mynni Norðurárdals.Í Varmahlíð vorum við kl.14.30 en þá reyndist opnun sundlaugarinnar ekki fyrr en kl. 16, hálfum öðrum tíma síðar. Ekki vildum við bíða en settum stefnuna á Blönduós. þegar þangað kom voru áningarstaðirnir við þjóðveginn fullir af ferðafólki en sundlaugin virtist öllum gleymd. Harðlokuð og engar upplýsingar að hafa um opnunartíma. Eftir kók og pylsu var stefnan sett á Brú og ákveðið að hafa þar ís í eftirmat. Á Brú var hinsvegar ekki til ís í vél svo stoppið var frekar stutt. Ákváðum sem lokaáætlun að fara í laugina í Borgarnesi og Hyrnuís á eftir. Í Borgarnesi er sundlaugin opin til kl. 22 á virkum dögum en 18 um helgar. Starfsfólk hafði ákveðið að þessi mánudagur væri helgi og því komum við að lokuðum dyrum kl. 18.40. Semsagt, ekkert eftir nema fá sér ís. Hyrnan brást ekki frekar en fyrri daginn, og eftir að hafa spjallað þar við nokkra brottflutta Ísfirðinga ákváðum við að skella okkur bara út í traffíkina og rúlla með lestinni suður. Þegar út á þjóðveginn var komið var umferðin hins vegar mun minni en við höfðum búist við og viðvorum í hlaðinu heima um kl.20.30. Velheppnaðri ferð var lokið.

0 Comments:

Post a Comment

<< Home